Þeir grípa þá á meðan þeir eru ungir..

Það barst bréf hingað á heimilið fyrir stuttu, stílað á mig og sambýlismann minn sem og tíu vikna gamlan son okkar.

Bréfið er svohljóðandi:

Kæri námufélagi.

Innilega til hamingju með barnið!

Í tilefni af fæðingu barns þíns vill Landsbankinn stofna Framtíðargrunn fyrir barnið þitt og leggja inn á hann gjöf að andvirði 5.000 krónur. Um er að ræða verðtryggðan innlánsreikning sem er bundinn til 18 ára aldurs og ber ávallt góða vexti.

Gjöfin verður færð inn á reikninginn þann 27. júlí næstkomandi en eftir þann tíma færð þú stofnskírteini sent heim, þar sem fram koma upplýsingar um reikningsnúmer. Eigi barnið Framtíðargrunn fyrir verða 5.000 krónur lagðar inn á þann reikning og verður þér send tilkynning þess efnis.

Þegar Framtíðargrunnur er stofnaður er barnið sjálfkrafa skráð í barnaþjónustu Landsbankans, sem heitir Sprotarnir. Sproti er kátur, snjall og ráðagóður vinur allra barna. Þú getur lesið þér frekar til um Sprota, og félaga hans og Framtíðargrunninn á www.landsbankinn.is.

Viljir þú afþakka þessa gjöf biðjum við þig vinsamlegast um að senda upplýsingar um nafn og kennitölu barnsins á netfangið sprotarnir@landsbankinn.is fyrir 26.júlí næstkomandi.

Gangi ykkur allt í haginn.

Með bestu kveðju.

Landsbankinn.

 

Þrátt fyrir að hafa verið í viðskiptum við Landsbankann í ca. áratug, þykir mér fremur hvimleitt að þjónustu sé þröngvað uppá mig. Skítt með þessar 5.000 krónur, ég kæri mig ekkert um svona mútupeninga. Ég kæri mig ekkert um það, að það sé þröngvað svona þjónustu uppá ómálga barn, án þess að það sé svo mikið sem spurt foreldra þess.

Ég skráði sex ára son minn í Barnaþjónustu Landsbankans þegar hann var fjögra ára gamall. Þegar það var gert varð ég að gjöra svo vel að framvísa skilríkjum, og skrifa undir pappíra þess eðlis að ég væri örugglega sú sem ég sagðist vera, og að hann væri alveg örugglega sonur minn, svo að enginn misskilningur væri nú á ferðinni. En það virðist ekki þurfa þegar ómálga börn eru annars vegar, að reikningurinn sé hreinlega bara stofnaður sí svona, foreldrum að forspurðum, og mútupeningum komið þar fyrir til þess að gera þennan díl aðeins mýkri. 

Hvernig væri það annars, ef að eitthvert símafyrirtækið myndi nú hringja í mann, og segja manni að það væri búið að skrá mann í áskrif hjá sér, og þeir myndu senda til manns símakortið von bráðar? Svo maður hlýtur að spyrja sig, hvort svona viðskiptahættir séu almennt löglegir? Er það hreinlega bara í lagi, að banki stofni reikning fyrir einhvern, bara sísvona, og ætlast svo til þess að viðkomandi "afþakki" það ef hann kærir sig ekki um það? Væri ekki nær, fjandinn hafi það, að bjóða mér og sambýlismanni mínum þessa þjónustu, í stað þess að neyða okkur í hana?

Ykkur að segja, sem kynnuð að spyrja þá ætla ég að afþakka þetta "tilboð", auk þess sem ég hef sent afrit af bréfinu til Neytendasamtakanna. 

Þess má einnig geta, að ég er alvarlega að íhuga að færa mín viðskipti eitthvert annað eftir þetta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta eru afleitir viðskiptahættir og varla löglegt en pottþétt siðlaust.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 21.7.2010 kl. 22:15

2 Smámynd: hilmar  jónsson

Ég hélt að svona vinnuhættir hefðu lagst af eftir hrun...

hilmar jónsson, 23.7.2010 kl. 22:52

3 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Pabbi: Já, þetta er skítlegt eðli.

Hilmar: Bankar, tryggingafyrirtæki og fjármögnunarfyrirtæki almennt eru ef eitthvað er bara enn ýtnari eftir hrun.

Ég get ómögulega talið upp öll þau skipti, bara síðustu tvo mánuði, sem hringt hefur verið í mig til þess að bjóða mér betri og ódýrari tryggingar, betri greiðsluþjónustu, vexti, lán og blablabla. Á svona tímum reyna bankar og fyrirtæki nánast allt til þess að narra þig yfir í viðskipti við sig.

Og það er ótrúlegt hversu mikið þeir vita um þig þegar þeir hringja.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 23.7.2010 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband