Hjónabandsjafnrétti

Vek athygli á færslu minni um sama mál, sem heitir "Hjónabandsjafnrétti og kristið kynlíf".


mbl.is Sumir mega bæði elska og sofa hjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjónabandsjafnrétti og kristilegt kynlíf

Undanfarin ár, og jafnvel áratugi, hafa ýmis mannréttindamál verið mikið á baugi  þjóðfélagsumræðunnar, umræður sem spanna allt litrófið er varðar kynhneigð, kynvitund, kynþáttar,  kynjahyggju, o.s.frv.
Síðustu misseri hefur miðdepill þessara umræðna verið um atburði sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum undanfarin ár, eins og t.d. fordómar og ofbeldi sem fólk af afrískum uppruna, samkynhneigðir og transfólk hafa mátt þola.
En líkt og flestir vita, komst hæstiréttur Bandaríkjanna nýlega að þeirri niðurstöðu, að réttindi samkynhneigðra til hjónabands er varinn af stjórnarskrá þeirra, sem vitaskuld eru mikil gleðitíðindi. Ekki bara fyrir samkynhneigða, heldur mannkynið allt.

Í kjölfar úrskurðarins, rökstuddu allir hæstaréttardómararnir ákvarðanir sínar.
Clarence Thomas hæstaréttardómari var þar engin undantekning. Margir stuðningsmenn lögleiðingarinnar, sem og þeir hæstaréttardómarar sem greiddu atkvæði með lögleiðingunni, fullyrtu (réttilega) að hjónabandsjafnrétti myndi færa samkynja pörum ákveðna reisn.
Þessar fullyrðingar fóru mikið fyrir brjóstið á Clarence Thomas, því í rökstuðningi sínum hnýtti hann í orðalag samstarfsmanna sinna með tilvísunum um þrælahaldið í Bandaríkjunum.

Hann skrifaði; „Slaves did not lose their dignity (any more than they lost their humanity) because the government allowed them to be enslaved. Those held in interment camps did not lose their dignity because the government confined them. And those denied governmental benefits certainly do not lose their dignity because the government denies them those benefits. The government cannot bestow dignity and it cannot take it away.“

Dignity (reisn) er skilgreind sem, „The state or quality of being worthy of honour or respect.“
Eitthvað sem fæst okkar tengja við fórnarlömb þrælahalds.

Clarence Thomas hefur væntanlega gleymt þeirri staðreynd að þrælar voru í keðjum, og bjuggu við ömurlega meðferð og lífsskilyrði. Eftir frelsun þrælanna tók fátt gott við fyrir afkomendur þeirra, en þeir nutu ekki jafnra borgararéttinda í augum laganna fyrr en um 1964, rétt tæpri öld eftir að þrælahaldinu lauk.
Það var svo ekki fyrr en árið 1967 að hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi í máli hjónanna Mildred og Richard Loving, sem voru stuttu áður dæmd í árs fangelsi í Virginíu fyrir að hafa gengið í hjónaband. Mildred var dökk á hörund, en Richard var hvítur.
Fram að þessu höfðu hjónabönd á milli hvítra og „litaðra“ verið ólögleg í mörgum fylkjum.

Hæstiréttur úrskurðaði þeim í vil, og sagði hjónaband þeirra varið af stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Yfirlýsing Clarence Thomas er því frekar kaldhæðnisleg, og jafnvel hræsnaraleg, þar sem hann er ekki bara eini svarti hæstaréttardómarinn, heldur er hann líka giftur hvítri konu.
Hjónaband þeirra væri enn ólöglegt í dag, ef hæstiréttur Bandaríkjanna hefði ekki komist að þeirri niðurstöðu að hjónaband Mildred og Richard Loving væri varið af stjórnarskrá Bandaríkjanna, sem hann [Clarence Thomas] telur að ekki eigi við í máli réttindum samkynja para til hjónabands.

Earl Warren, forseti Hæstaréttar á þeim tíma, hafði þá þetta að segja, „Marriage is one of the “basic civil rights of man,“ fundamental to our very existence and survival.... To deny this fundamental freedom on so unsupportable as a basis as the racial classifications embodied in these statutes, classifications so directly subversive of the principle of equality at the heart of the Fourteenth Amendment, is surely to deprive all the State‘s citizens of liberty without due process of law. The Fourteenth Amendment requires that the freedome of choice to marry not be restricted by invidious racial discrimination. Under our Constitution, the freedom to marry, or not marry, a person of another race resides with the individual and cannot be infringed by the state.“

Ennfremur var það niðurstaða hæstaréttar, að lög sem bönnuðu fólki af mismunandi kynþáttum að giftast væru rasísk í eðli sínu og hefði eini tilgangur þeirra verið til þess að ýta undir yfirburði og drottinvald hvíta mannsins.

„There is patently no legitimate overriding purpose independent of invidious racial discrimination which justifies this classification. The fact that Virginia prohibits only interracial marriages involving white persons demonstrates that the racial classifications must stand on their own justification, as measures designed to maintain White Supremacy.“

Þess má geta, að rök og andstaða við hjónaband hvítra og „litaðra“ eru samhljóma þeim sem andstæðingar hjónabands samkynhneigðra nota í dag.
Ef við horfum til baka vitum við alveg að andstæðingar fólks eins og Mildred og Richard Loving höfðu rangt fyrir sér. Rök þeirra voru fornaldarleg, fordómafull, og full af hatri.
Eðli þessara raka hefur ekkert breyst síðustu hálfa öldina, skotmarkið er bara annað.

Málefni LGBT fólks hafa ekki síður hreyft við okkur hér á Íslandi.
Þrátt fyrir breytt orðalag í hjúskaparlögum á árinu 2010 höfum við ekki orðið fyrir meiriháttar hamförum. Þyngdaraflið er ennþá til staðar (ég tjékka á hverjum morgni), við ferðumst enn á 30km/sec í kring um sólina, (ókristileg?) samfélagsvandamál hafa ekki færst í aukana, og ótrúlegt en satt hefur ennþá ENGINN reynt að giftast skjaldbökunni sinni.

Þrátt fyrir jákvæða reynslu af þessum breytingum sjáum við daglega sjálfskipaða siðferðispostula (1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10) setja mis ígrundaðar fullyrðingar sem eiga að sýna okkur hinum vitleysingunum hvað við höfum lítið vit fyrir okkur sjálfum.

Þessir sjálfskipuðu siðferðispostular bera fyrir sig ýmsar ástæður og afsakanir fyrir djúpstæðu hatri sínu á samkynhneigðum og transfólki. Það nýjasta og örugglega það vitlausasta hlýtur að vera skoðanakönnun sem virkasti penni á vef ör-stjórnmálasamtakanna Kristinn Stjórnmálasamtök lagði fram, en tilgangur hennar var að skoða afstöðu hina ýmissa þjóða til málefna samkynhneigðra.
En með þessu vill sá sem ritar meina, að mannréttindabrot  séu í lagi, svo fremi sem það sé eftirspurn eftir þeim .
Höfundurinn vill þó ekki viðurkenna að útskúfun samkynhneigðra og takmarkanir á réttindi þeirra til hjónabands séu mannréttindabrot, heldur líkti hann hjónabandi samkynja para við að veita blindum ökuréttindi, því ástir tveggja fullveðja einstaklinga er augljóslega alveg eins og blindir menn á tveggja tonna tryllitækjum.
Hinsvegar hefur hann bloggað mikið í gegnum tíðina um ofsóknir á kristnum mönnum, sem að sjálfsögðu hræðilegt í alla staði, en orkar á sama tíma tvímælis.
Nokkur lönd sem hann telur upp í bloggfærslum sínum birtast á lista sömu skoðanakönnunar sem hann leggur fram máli sínu til stuðnings. Önnur lönd sem hann telur upp eru nágrannaríki þeirra landa sem talin eru upp í sömu könnun, og er það alls ekki langsótt að áætla að nágrannaríki deili ýmsum skoðunum og áhrifavöldum.
Ég býst þó ekki við því að hann myndi fallast á þau rök að kristnir séu ofsóttir á þessum slóðum vegna mikillar eftirspurnar, líkt og hann vill meina að sé raunin með LGBT fólk.
Hann hefur þó aldrei farið leynt með þá skoðun sína að líf kristinna manna er verðmætara en annarra.

Þrátt fyrir bergmálið í ofangreindum siðferðispostulum þá er samkynhneigð er ekki það samfélagsvandamál og þeir vilja meina að það sé. Glæpir, hatur, fordómar, og ofbeldi gegn samkynhneigðum er það hinsvegar, sem og varanlegar afleiðingar sem ofantalið kann að valda.

Ég ákvað að leggjast í smá rannsóknarvinnu, og kanna stöðu LGBT fólks í þeim löndum sem verma toppsæti þessarar skoðanakönnunar, sem fjör-penninn hjá ör-samtökunum Kristinn Stjórnmálasamtök vill endilega (í þessu tilviki) bera sig saman við.
Niðurstöðurnar voru nokkuð afgerandi, og síður en svo jákvæðar.

Í Ghana er kynlíf samkynhneigðra karlmanna bannað með lögum. Slík háttsemi er refsiverð með lögum, með allt að 3-25 ára fangelsisdóm. Þó svo að samþykki beggja einstaklinga liggi fyrir.
Þar í landi er það mjög algengt að hinsegin fólk sæti daglegu líkamlegu og andlegu ofbeldi , það fangelsað, útskúfað, beitt fjárkúgunum, og jafnvel myrt. Mannréttindi þeirra eru brotin á degi hverjum, og eru engin lög sem vernda rétt LGBT fólks til jafnréttis.

Í Jórdaníu er samkynhneigð ekki bönnuð (hefur verið lögleg allt frá árinu 1951), en álitin sódómísk. Fram til ársins 2013 voru heiðursmorð á samkynhneigðum fjölskyldumeðlimum lögleg, en annars eru engin lög sem vernda rétt LGBT fólks til jafnréttis. Ofbeldi, glæpir, hatur, og fordómar eru ráðandi.

Í Egyptalandi er samkynhneigð ekki beint bönnuð með lögum, en lögregla þar í landi nýtir velsæmislög til þess að ryðjast inn á heimili fólks og skemmtistaði , til að framkvæma handtökur á þessum forsendum, og dæma það til fangelsisvistar. Lögregluyfirvöld þar í landi hafa m.a. gengið svo langt að búa til einkamálaauglýsingar til þess að tæla samkynhneigða og transfólk, til þess eins að handtaka þau.
Dæmi eru um það að samkynhneigðum sé meinuð innganga inn í landið, og því jafnvel vísað frá.
Það eru engin lög sem vernda rétt LGBT fólks til jafnréttis.

Í Palestínu er landflótti LGBT fólks algengur, vegna fordóma, ofbeldis, og hatursglæpa þar í landi. Margir þeirra flýja til Ísraels, þrátt fyrir áhættuna um að vera vísað til baka, eða að vera fangelsaðir fyrir njósnir, því þeir upplifa sig öruggari þar en á heimaslóðunum.
Það eru engin skýr lög sem banna samkynhneigð eða samkynhneigt kynlíf, en hvortveggja er burtséð frá því refsivert, og litið hornauga í Palestínsku samfélagi. Engin lög eru til staðar sem vernda rétt LGBT fólks til jafnréttis.

Í Úganda er samkynhneigð ólögleg, og refsiverð með allt að 14 ára fangelsisvist.
Árið 2009 lág fyrir frumvarp sem átti að herða lög gegn LGBT fólki, sem var sem betur fer fellt síðar.
Ofbeldi gegn LGBT fólki í Úganda er landlægt, og oft ofsafengið.
Engin lög eru til staðar sem vernda rétt LGBT fólks til jafnréttis.

Í Indónesíu eru allar umræður um kynlíf litnar hornauga, bæði af þjóð og ríki, og því er samkynhneigð eða málefni LGBT fólks í heild aldrei til umræðu.
Samkynhneigð er ekki refsiverð í Indónesíu gjörvallri , en er þó fordæmd harðlega, og þá sérstaklega af leiðtogum trúfélaga. Í fáeinum héruðum Indónesíu er samkynhneigð bönnuð með lögum (fyrir múslíma), og er refsingin fyrir samkynja kynlíf 100 vandarhögg.
Hegningarlög  banna ekki klæðskipti, né kynlíf á milli tveggja samþykkra samkynhneigðra einstaklinga, þó er samræðisaldur hærri hjá samkynja pörum.
Þó ótrúlegt megi virðast er ofbeldi gagnvart LGBT fólki af hendi almennra borgara ansi fátítt (en grasserandi fordómar eru það ekki), en það er að færast í aukana af tilstuðlan hatrammas áróðurs af hendi trúfélaga gegn LGBT fólks.
Lögregluyfirvöld hafa einnig sætt gagnrýni fyrir kerfisbundið áreiti á LGBT fólki, sem hefur reynst erfitt að skrásetja. Fórnarlömb þeirra hafa verið tvístígandi við að stíga fram og gefa skýrslu af ótta við að opinbera kynhneigð sína.
Engin lög verja rétt LGBT fólks til jafnréttis í Indónesíu.

O.s.frv. O.s.frv.O.s.frv.
Ég gæti vel haldið áfram, en trendið ætti að vera orðið nokkuð augljóst núna.

Hver ágætlega þenkjandi einstaklingur getur vel séð að samkynhneigð er ekki samfélagsvandamál. Ofbeldi, fordómar, hatur, pyntingar, leiðréttingarnauðganir, morð, útskúfun, há sjálfsmorðstíðni, opinberar niðurlægingar, og skortur á verndandi lagaramma LGBT fólks er samfélagslegt krabbamein.
Sama máli gildir um ofantalda hluti um alla minnihlutahópa og aðra kúgaða þjóðfélagshópa.

Það er staðreynd að mannréttindi og réttindabaráttur minnihlutahópa smita útfrá sér. Hver réttindabarátta greiðir leið fyrir næsta minnihlutahóp sem er fórnarlamb haturs, fordóma, og útskúfunnar. Hver einasti smásigur í baráttu mannréttindahópa, burtséð frá málefninu, skapar keðjuverkun sem leiðir mannkynið skrefi nær jafnrétti.
Andstæðingar jafnréttis eru í langflestum tilfellum hópar fólks sem njóta ýmissa forréttinda fram yfir aðra þjóðfélagshópa, sem misskilja hugtakið „jafnrétti“ á þeim grundvelli að aukin réttindi fyrir aðra þýði minni réttindi fyrir þá sjálfa.
Þessi keðjuverkun gengur því miður á báða bóga, og því brennur á mér sú spurning hvort nokkur sæmilega þenkjandi íslendingur vilji bera þjóð sína saman við ofantöld lönd.

Siðferðispostularnir sjálfskipuðu höggva mikið eftir því að hjónabönd samkynhneigðra geti ekki af sér afkvæmi; fullyrðingar sem vekja upp ýmsar spurningar.

Ef við lítum framhjá þeirri æpandi staðreynd að barneignir eru líffræðilega ekki háð þeim skilyrðum að fólk sé gift, og við gefum okkur það (í smá stund) að þessar fullyrðingar eigi við einhversskonar ímynduð rök að styðjast, hvað segir það þá um gagnkynhneigt fólk?

Hvað með fólk sem einfaldlega kærir sig ekki um barneignir?
Það er sjálfsagður réttur hvers og eins að ákveða hvort hann/hún vilji á annað borð geta af sér afkvæmi, og það færist sífellt í aukana að fólk velji að gera það ekki.
Margvíslegar ástæður eru þar að baki.
Sumir vilja setja starfsframa sinn í fyrsta sætið. Sumum finnst hugmyndin bara alls ekkert heillandi. Aðrir velja að fjölga sér ekki vegna arfgengra sjúkdóma sem þeir vilja ekki bera áfram í afkvæmi sín.
Hafa þessir einstaklingar fyrirgert rétti sínum til hjónabands á forsendum ofantaldra ástæðna?

Ekki má gleyma fólki, sem þráir að eignast börn, en glímir við ófrjósemi.
Hefur fólk, sem glímir við líffræðilega erfiðleika (eða ómöguleika) til getnaðar, fyrirgert rétti sínum til hjónabands?

Hafa þessir siðferðispostular í huga að koma með einhversskonar breytingartillögur á hjúskaparlögum með tilliti til þessa hópa?
Vilja þeir t.d. að skilyrðum til könnunar á hjúskaparbreytingum yrði breytt á þann veg að fólk yrði skikkað í frjósemispróf? Eða að hjúskaparskilyrðum verði breytt svo að hjónabönd sem ekki hafa getið af sér afkvæmi innan x ára verði tafarlaust ógild?

Ef svarið við þessum spurningum er nei, þá er ansi óhætt að fullyrða að þessi „rök“ eru einungis fyrirsláttur sem ætlaður er til þess að fela raunverulegar hvatir þeirra til andstöðu, s.s. ótti þeirra á skerðingu á þeim gífurlegu forréttindum sem þeir njóta.
Ég hef a.m.k. ekki séð jafn háværa andstöðu þeirra í þessum málum sem líkja má við hatramma baráttu þeirra gegn réttindum LGBT fólks, sem m.a. hefur falið í sér samlíkingar samkynja hjónabanda á við sifjaspell, barnaníð og dýraníð!

 „Kristið kynlíf“ er hugtak sem ósjaldan ber á góma hjá siðapostulunum í þessu samhengi, en þeir hvetja fólk eindregið til þess að stunda gott, siðlegt, og kristið kynlíf, en að hverfa frá sódómísku, lauslæti, og ósiðlegu kynlífi, eins og að flengja maka sína. En ósiðlegt kynlíf er jafnframt kynlíf sem ekki getur af sér afkvæmi, á sér stað í vel lýstu herbergi, og í annarri stellingu en trúboðanum.

Hvernig stendur samt á því að sömu mennirnir, sem hvetja til kristilegs kynlífs, skuli vera svona helteknir af ókristilegu kynlífi annarra?
Hvernig stendur á því, að þessir einstaklingar leyfi sér að skipta sér af kynlífi annarra, og miskunnarlaust dæma heilu þjóðfélagshópana útfrá því sem gerist á bakvið luktar svefnherbergisdyr?

Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.
Að því sögðu, tel ég það vera borgaralega skyldu mína, að krefja þessa einstaklinga um greinargóða útlistingu á bólförum þeirra yfir síðustu áratugi, og færa sönnur fyrir því að þeir hafi einungis stundað kristilegt kynlíf. Hversu oft sjálfsfróun hefur verið stunduð og hvað þeir voru að hugsa um. Hversu oft hafa þeir verið með maka sínum og hugsað um aðra konu/mann. Hversu oft var kynlíf stundað sem ekki varð úr getnaður. Hvaða ókristilegar stellingar þið hafið stolist til þess að prufa. O.s.frv.

Hvernig eigum við hin annars að geta dæmt ykkur með góðu móti, nema að þessum upplýsingum fengnum?

Ég er nokkuð viss um að enginn eigi eftir að bjóða sig sjálfviljugur fram, svo ég legg til að Jón Valur Jensson taki af skarið og deili með okkur kristilegum bólförum sínum, eða þegi ella.


Hann er brattur!

Fæðingartíðnin er einstaklega lág í Rússlandi, fóstureyðing vinsælasta getnaðarvörnin, brottflutningar (flótti) í sögulegu hámarki, dánartíðnin há, og fólksfækkunin þar á bæ því nokkuð stöðug (og skuggalega mikil) frá því við fall Sovétríkjanna.

Hjónabönd (og allt annað) samkynhneigðra bönnuð.

Maður hlýtur því að spyrja sig hvað þessi ummæli segja um hann og þjóð hans..


mbl.is „Berlusconi dæmdur vegna kynhneigðar sinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduhátíð og fordómar

Á hverju ári er fjölskylduhátíðin í Vogum haldin hátíðleg.
Dagskráin hefur verið fjölbreytileg og skemmtileg, og nóg um að vera fyrir börn og foreldra þeirra. 

Bænum er skipt niður í litahverfi, og fólk skreytir hús sín í þeim litum sem hverfi þeirra var úthlutað. 
Síðasta sumar tókst okkur að skreyta örlítið, þó mun minna en okkur hefði langað til, og höfðum við meðal annars planað að skreyta húsið og garðinn okkar vel þetta árið.

Þátttökugleðin er þó farin að renna örlítið af mér þessa dagana, og því má m.a. þakka LGBT umræðunni undanfarið. 
Halldór nokkur Jónsson bloggaði um daginn varðandi meint ofbeldi samkynhneigðra á honum sem gagnkynhneigðum karlmanni. Þótti honum, og öðrum sem skyldu eftir sig athugasemdir, vera að karlmennsku sinni vegið að samkynhneigðir karlmenn skyldu almennt vera til. Kossar tveggja karlmanna þykir honum vera svo ósiðsamlegt og ógeðslegt, og telur hann slíkt ætti að falla undir velsæmislög. 
Þó það væri látið ósagt, þá grunar mig að honum finnist að Lögregluembættið á Íslandi, eins undirmannað og það er, ætti því undireins að einbeita sér að því að hneppa harðsvíraða og samkynhneigða glæpamenn höndum, og vista þá á viðeigandi stofnun. 

Þrátt fyrir hinar ýmsu fullyrðingar um samkynhneigða og meint ofbeldi þeirra gegn honum, fullyrti Halldór að hann styddi réttindabaráttu samkynhneigðra heilshugar. 
Svona "duldir" fordómar eru nokkuð algengir á Íslandi, þrátt fyrir að enginn vilji viðurkenna þá. Margir einstaklingar fullyrða, og hampa sjálfum sér fyrir, hversu umburðarlyndir þeir eru gagnvart samkynhneigðum einstaklingum, en kalla þá jafnframt ofdekraða kynvillinga í sömu setningu. 

"Tjah. Mér finnst ekkert að samkynhneigðum, margir minna bestu vina eru samkynhneigðir sko. Þeir mega lifa sínu lífi eins og þeir vilja, en mér finnst þeir ekki mega gera svona og svona og svona."

Manneskja sem hefur nokkurn tímann látið svona vitleysu út úr sér er haldin fordómum. Svo einfalt er það. Bara sú staðreynd að nokkur manneskja skuli leyfa sér að halda það að einhverjir þjóðfélagsþegnar ættu að vera réttindaminni en þeir sjálfir, sama útaf hverju það er, er haldin fordómum.

Eftir umræddan bloggpistil birti DV umfjöllun um Halldór og innihald pistilsins, og í kjölfarið af því reið Gylfi nokkur Ægisson gallvaskur inn á vígvöllinn, og kom Halldóri til varnar. Hann sagðist vera alveg sammála honum, og kvað samkynhneigða "ganga of langt".
Hann fullyrti að gay pride og tilvera samkynhneigðra væri hreinlega skemmandi fyrir börn, og innti að því á endanum yrðu þau öll samkynhneigð og því þyrfti að byrja kerfisbundinn innflutning á rússneskum börnum. Hann stoppaði ekki þar, heldur líkti hann hann þessum meintu skemmdum við barnaníði og ýjaði að því að allir hommar væru nauðgarar.

Það er greinilegt að gay pride gangan er rosalega mikilvæg, fullu jafnrétti hefur ekki verið náð. Svo lengi sem "hommi" er neikvætt í huga fólks, og að fólk þyki ógeðslegt að sjá pör af sama kyni, þá þarf þessi barátta að halda áfram.

Umfjöllun um þennan mann og viðtöl við hann hafa verið í bæði útvarpi og vefmiðlum, og hefur því væntanlega náð augum og eyrum barna.
Þess vegna harma ég ákvörðun aðstandenda fjölskylduhátíðarinnar um að fá Gylfa Ægisson til að spila á hátíðinni.
Ég mun hinsvegar láta mig og mín börn vanta á þessa hátíð, enda tel ég það beinlínis mannskemmandi fyrir þau að verða vitni af hatrinu og mannfyrirlitningunni sem frá þessum manni kemur.

mbl.is Fjölskylduhátíð í Vogum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkjamenn leita lausna..

Bandaríkjamenn eiga þá líklegast eftir að leita aftur í tímann eftir fordæmum, og líklegasta lausnin verður þá að vopna allar tveggja ára telpur svo þær geti varið sig.

Enda má klárlega ekki herða löggjöfina, það væri klárt brot á mannréttindum þar vestra. 


mbl.is Skaut 2 ára systur sína til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttindi samkyhneigðra

Vinsamlegast horfið á myndbandið til enda. Ekki spóla í gegn, heldur hlustið á hvert einasta orð.


Skynsemi Bjartsýnisflokksins

Nú er ég sko alveg búin..
Ég held svei mér þá að ég hafi fundið eitthvað það ógeðslegasta sem augu mín hafa litið. Ég hef séð ýmislegt misjafnt hér á moggablogginu, en þessi færsla hérna fær vinninginn. 

Höfundur vill halda því fram að ættleiðingarferlið sé í raun ekkert annað en barnslausir einstaklingar að uppfylla drauma sína á kostnað fátæka fólksins í fátækju ríkjunum, og að þetta sé bara hrein og bein viðurstyggð.
Hvað með barnið? Er það ekki að hreppa stærri vinninginn? Munaðarleysingi, sem annars myndi veslast upp á munaðarleysingjahæli og síðar líklega enda á götunni, er þarna að græða tvo foreldra sem lofa að elska hann/hana, gæta þeirra og tryggja þeim farsæla framtíð?  
Höfundur vill greinilega ekki békenna þessa hlið ættleiðingarferlisins, en telur það hinsvegar eðlilegt og skynsamlegt að greiða vestrænum og auðvitað íslenskum konum sem vilja nýta lagalegan rétt sinn til fóstureyðingar háar fjárhæðir til þess að ganga með börn sín og gefa þau til ættleiðingar!

Skynsamlegt já? Er það allt í einu orðið skynsamlegt að horfa framhjá þeirri neyð, sem miljónir munaðarleysingja í heiminum lifa í, og hreinlega bæta bara í hópinn? Hvað í andskotanum er skynsamlegt við það?

Það fer einnig alveg einstaklega fyrir brjóstið á höfundi, að fólk skuli ættleiða börn frá kína sem hafa sérþarfir. Hvort sem það er líkamlega eða andlega fötlun hvort sem hún er meðfædd eða áunnin af sjúkdómum. Hann vill semsé meina það að vegna þess að Kínverjar eiga einhverja varasjóði, eigi þeir bara að sjá um sín fötluðu börn sjálf, en ekki vera að pranga þeim inn á varnarlausa og örvæntingarfulla einstaklinga af vestrænu bergi brotnu.
Hann vill semsé ekki békenna þann rétt sem einstaklingar hafa til þess að ákveða sjálfir hvort þeir yfir höfuð kæra sig um að ættleiða börn með sérþarfir. Frekar virðist hann sannfærður um að börnum sé hreinlega bara prangað upp á foreldra í ættleiðingarhugleiðingum, og þetta sé bara "take it or leave it."
Hann skilur kannski ekki, að ólíkt honum þá er til fólk sem auðveldlega getur horft framhjá fötlunum, og horfir ekki á fólk með einhversskonar fötlun sem "second class" borgara.

Hann gerir sér einnig ekki grein fyrir því að ættleiðingarferlið til að fá barn frá Kína er örugglega eitt af því strangasta sem hægt er að fara í gegnum, og setja Kínverjar mjög ströng skilyrði fyrir því að fólk fái að taka kínversk börn út úr landinu, og kalla sín eigin. Og að þrátt fyrir varasjóði kínverja er ekki beinlínis dreift úr þeim jafnt til þegna og stofnana landsins. Kínverska þjóðin sem slík, telst seint vera að drukkna í fjármunum.

"Þurfa ekki sumir sem vinna að þessum málum að lofta út úr hausnum á sér mestu vitleysunni og tileinka sér heilbrigða dómgreind? Þarf ekki að vera einhver skynsemi og framtíðarsýn með í spilinu eða hvað? Hafa meðvirknisjúklingarnir alveg tekið völdin?"

Ég tel mig ekki beint þurfa að svara þessari setningu, finnst hún tala rosalega mikið fyrir sig sjálf, og bendi ég greinarhöfundi að segja hlutina upphátt áður en hann ritar þá niður.

Greinarhöfundur hefur einnig sterkar skoðanir þegar það kemur að lagalegu hliðum ættleiðingarmála, og vill að undir eins verði sett í lög að einungis sé hægt að ættleiða líkamlega og andlega heilbrigð börn, að annað sé "firra og dómgreindarskortur". Einnig finnst honum að það ætti að banna ættleiðingar á börnum sem "líta ekki út eins og hinir". Eða með öðrum orðum var hann kurteisilega að reyna að segja okkur að hann er bullandi kynþáttahatari, og vill ekki sjá börn með annan hörundslit en þann sem hann hefur.  

Ennfremur hefur hann væntanlega hugsað vel útí þetta.  Ég meina, það getur bara hreinlega ekki annað verið en að hann hafi hugsað út í þann möguleika að hvítvoðungar bera ekki andlega fötlun utan á sér. Og mjög oft koma sjúkdómar sem valda líkamlegri fötlun ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár. Í þessum tilfellum hlýtur að vera einhversskonar "þriggja ára skilafrestur". Því foreldrar sem hafa átt ættleidd börn í einhver ár, og komast svo að því að barnið er með einhversskonar sjúkdóm sem veldur andlegri og/eða líkamlegri fötlun, að þeir hreinlega bara hætta að elska barnið sísvona, og vilja fá nýtt. Það bara segir sig sjálft.

Höfundur ætlar e.t.v. að stofna ættleiðingarþjónustu sem heitir "Engir <enter racial slur> hér!", með sloganið, "Aldrei of seint að sturta þeim niður!"

Að lokum leggur hann svo til aðbannað verði að "ættleiða börn af sérþarfalistum" og að aðeins verði leyft að ættleiða heilbrigð (hvít) börn. 
Því að fötluð og lituð börn þurfa ekki foreldra.

En auðvitað má ekki gleyma að fóstureyðingar eru að sjálfsögðu bannaðar. Þótt fóstrin séu fötluð. Þau mega fæðast, það má bara ekki elska þau.

 

Að lokum vil ég taka fram að það tók á öllu sem ég á að úthrópa höfund þessarar viðbjóðslegu færslu allskonar nöfnum. Eitt skal þó tekið fram, að ef hann hefði verið ættleiddur, væri löngu búið að skila honum. 


Er þá ekki tilvalið...

..að efna til skrúðgöngu honum til heiðurs, líkt og gert var þegar handboltastrákarnir okkar komu heim með silfrið?


mbl.is Jón Margeir: Gullið fær sinn vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skylduáhorf


Stelpustærðfræði

Ég verð bara að segja alveg eins og er.

Fyrst þegar ég las þessa frétt og skoðaði meðfylgjandi myndir, þá hélt ég í alvörunni að "fyrir" myndin væri "eftir" myndin.

Ég gat ekki betur séð en að þarna væri á ferðinni alveg þrælmyndarleg kona, með mjög fallegan vöxt. Og bara ekkert útá það að setja. Fyrir utan að á hinni raunverulegu "eftir" mynd þykir mér þetta vera of grannt. Og þess vegna skil ég ekki hvernig heilsufar hennar hefur batnað til muna á þessum 5kg.

En mér liggur samt forvitni á að vita, hvort það að þetta eigi að vera einhversskonar auglýsingarherferð fyrir þessa bók sem minnst er á í fréttinni? 

"Þegar Ágústa Ósk tók prófið í upphafi átaksins fékk hún þá niðurstöðu að hún væri 60 ára. Nú 10 vikum síðar er líffræðilegur aldur hennar kominn í 24 ára. Það má því segja að Ágústa Ósk hafi yngst um 36 ár. Það er enginn smá árangur. "

Er þetta einhversskonar brandari? Er virkilega verið að reyna að sannfæra nokkurn mann, að þessari dömu hafi tekist að yngjast um 36 ár, með því að hrista af sér 5kg sem hún mátti varla við að missa? Svona stelpustærðfræði skil ég ekki.

Ég tek það fram að ég hef alla mína ævi talist mjög grönn og hef heyjað áralanga baráttu bara til þess eins að ná að þyngjast. Og þess vegna er mér fyrirmunað að skilja afhverju slíkur líkamsvöxtur telst æskilegur eða eftirsóknarverður á nokkurn hátt. Því aldrei hefur mér liðið vel með hann, heilsufarslega séð.


mbl.is Fyrir og eftir myndir af Ágústu Ósk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband