Færsluflokkur: Bloggar
20.4.2009 | 18:23
Ehm..
Ekki til að gera lítið úr merkum manni eða neitt..
En.. er hann ekki "alvarlega veikur" sama hvar hann er? ;]
Hawking alvarlega veikur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.10.2008 | 10:46
Réttur til einkalífs
Mér finnst það alveg hreint til skammar, að fólk í Bandaríkjunum skuli ekki hafa neinn rétt til einkalífs ef það þykir orðið frægt hvort sem það er vegna kvikmyndaleiks eða söngferils.
Það er daglegt líf fyrir þessa einstaklinga, að aragrúi ljósmyndara sitji um heimili þeirra og elta þau jafnan á röndum ef þau voga sér útúr húsi, bara fyrir það eitt að ná af þeim ljósmyndum.
Sjálf get ég ekki sagt að ég hafi nokkurntímann verið hrifin af Britney Spears en ég get þó ekki annað en vorkennt henni smá vegna þeirrar umfjöllunar sem um hana hefur verið í fjölmiðlum undanfarin misseri. Ég finn til með henni, í alvöru.
En það er ekki bara hún. Það eru bara hreint allt "fræga fólkið" sem þarf að glíma við þetta. Ég hef bara aldrei fattað þennan glamúr, afhverju manneskja sem leikur í kvikmyndum sé eitthvað merkilegra en hver önnur manneskja? Hvað með Jón Jónsson útí bæ? Það er bara eins og ekkert megi gerast. Fræg manneskja má ekki sjást úti á götu að klóra sér á efri vörinni, þá er það orðið að einhverri forsíðufrétt að viðkomandi sé argasti dóni í miðjum klíðum við að bora í nefið á almannafæri.
Svo næsta frétt er af einhverri annarri manneskju sem er úthrópaður og niðraður fyrir líkamsburði, ef hann sést fáklæddur. En það þykir engin skömm af því að viðkomandi ljósmynd var tekin af þessum einstakling á heimili hans/hennar, og er því hreint og klárt brot á einkalífinu.
Það er bara alveg sama hvað það er, hversu eðlilegar skýringar flestir hlutirnir eiga sér. Það er allt gagnrýnt.
En þetta er ekki bara þarna útí Bandaríkjunum. Þetta er líka hérna heima. En munurinn er kannski sá hérna heima fyrir, að þessi æsifréttamennska er hefur færst meira yfir hið daglega mynstur í íslensku þjóðfélagi. Besta dæmið um það eru kannski bara atburðir síðustu daga og vikna. Ég leyfi mér að fullyrða, að ef fjölmiðlar hérna heima fyrir hefðu farið aðeins hægara í sakirnar, og ekki gert úlfalda úr mýflugu væru hlutirnir alls ekki eins slæmir hérna á Íslandi eins og þeir eru. Margt sem hefði mátt koma í veg fyrir.
Spears mæðgur ósáttar á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2008 | 13:06
Englandsför
Jæja, þá er förin brátt á enda.
Við lentum á Manchester flugvelli seint síðasta mánudag. Þangað vorum við sótt af John og Jasmine, sem eru gamlir vinir mínir.
Ferðin heim til þeirra gekk frekar brösulega, þar sem Jasmine gengur illa að keyra í myrkri. Svo að ferð sem venjulega ætti ekki að taka lengur en 15 min, tók gott sem tvær klukkustundir, þar sem hún villtist hrapalega og keyrði óvart til Norður Wales.
En okkur tókst þó að komast á leiðarenda, þótt síðar væri. Þegar þangað var komið tók á móti okkur tík, sem enn er á hvolpaaldri og minnti helst meira á skopparakringlu frekar en eitthvað annað. Hún var fljót að taka ást á mér og Carsten og vék helst ekki í burtu þegar við vorum nálægt.
Þessar þrjár nætur sem við eyddum þar, sváfum við á svefnsófa sem var örugglega sá óþægilegasti sem ég hef á ævi minni legið í. Dýnan var eins þykk og þunnt teppi, þannig járnstangir og illa lagaðir gormar stungust upp í alla útlimi. Ég er ennþá með marbletti út um allan líkamann eftir það ævintýri. Ekki hjálpaði heldur að það hefur verið frekar heitt og þurrt í Bretlandi undanfarna daga, og við svefnsófann var stór gluggi, og skein beint í gegnum hann þegar sólin reis á morgnana. Hita brælan var svo þvílík, að ef eitthvað gleymdist í gluggakistunni, s.s. sími eða eitthvað álíka, þá bráðnaði það.
Jasmine og Simon, bróðir hennar, voru á leið til London sama dag og við vorum að fara. Þau fengu far með Tom, vini sínum. Því miður (og sem betur fer) var ekki pláss fyrir okkur í bílnum, þar sem þetta var sendiferða bíll og aðeins þrjú sæti allt í allt. En við fengum þó far á lestarstöðina, og sátum þá aftur í. Og það verður bara að segjast, að þetta var jafn óþægilegt og að sitja á kirkjubekk, þar sem maðurinn keyrði eins og óður væri, og þá á röngum vegarhelming.
Við komumst þó á lestarstöðina án nokkurra meiðsla. Þaðan fórum við til Manchester Piccadilly, til að ná hraðlestinni til London. Áætlunin var að eyða deginum í London, fara í smá verslunarleiðangur og hitta Alvin vin minn. Við renndum í hlað á Euston lestarstöðinni, á mínutunni 12:07, og fórum með farangurinn í geymslu, og biðum eftir Alvin. Hann hjálpaði okkur með dagpassa í lestirnar, og sýndi okkur alla helstu staðina, og fór svo með okkur á dýrasta steik húsið í Oxford Street. Eftir að hann var farinn, fórum við svo í þennan verslunarleiðangur. Dagurinn var allur planaður, það átti að versla, svo átti að skoða sig um og sjá alla helstu staðina. Martin og Helen áttu von á okkur á Pulborough lestarstöðinni uppúr 20:00. Allt í allt held ég að við höfum enst í London í svona tvær og hálfa klukkustund. Hitinn var svo þvílíkur, og mannfjöldinn alveg hræðilegur, að við ákváðum að koma okkur í burtu sem fyrst. Áttum í mestu erfiðleikunum að finna hvaða lest við ættum að taka, þar sem enginn virtist geta gefið okkur leiðbeiningar. En við komumst þó á endanum til Victoria frá Euston, og til Pulborough frá Victoria. Vorum svo komin til Petworth um kl 16:00.
Við höfðum reynt að ná í Martin frá því um tvö leytið, en hann hringdi ekki aftur fyrr en við vorum komin langleiðina til Pulborough, svo að Helen fékk hálfgert taugaáfall þegar það rann upp fyrir henni að hún hefði ekki nægan tíma til að klára allt sem hún ætlaði sér.
Þrátt fyrir það var vel tekið á móti okkur. Við vorum fyrst að koma af um tuttugu manns, restin kom ekki fyrr en daginn eftir. Þaðan af tók við 3 daga grillveisla sem var vægast sagt alger snilld. Áfengismagnið sem var innbyrt á þessum dögum var hreint ótrúlegt, enda þær birgðir sem allir héldu að myndu endast út helgina kláruðust fyrsta kvöldið. Eftir það var farið tvær eða þrjár ferðir aftur inní bæinn til að birgja upp aftur.
Núna erum við Carsten þau einu sem eru eftir, allir farnir heim á leið, en við förum ekki fyrr en á morgun. Sá síðarnefndi liggur ennþá sofandi inní tjaldi, í sem ég held að sé versta þynnka sem hann hefur upplifað.
En í stuttu máli sagt tókst þessi grillveisla mun betur en vonast var til, og allir skemmtu sér konunglega.
Ég hlakka þó til að komast heim annaðkvöld, þar sem ég hef ekki fengið almennilegan nætursvefn frá því að við komum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2008 | 11:05
Gangur lífsins
Þetta er jú gangur lífsins, það er annaðhvort að éta eða vera étinn. En í sannleika sagt, það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las þetta voru umræður sem hafa verið heitar í samfélaginu, ef ekki heiminum öllum undanfarna mánuði og jafnvel ár.
Margir urðu gjörsamlega snarbrjálaðir útí hvalveiðar Íslendinga, og hvernig var farið með aumingja kúrubangsann sem margir vilja segja í bráðri útrýmingarhættu.
Ætli við fáum einhver viðbrögð utan frá, eða frá húsmæðrum landsins sem segja blygðunarkennd sína særða, um að það hefði nú átt að bjarga aumingja hrefnunni frá dauða sínum?
Ekki til að hljóma neitt sérlega bitur ( sem ég er þó, og viðurkenni fúslega ), þá eru margir sem myndu hugsa þannig.
En burtséð frá því, þá eru háhyrningar alveg hreint mögnuð dýr, bæði stórglæsileg og gáfuð. Mæli með að allir renni í gegnum þetta.
En þetta er hlekkur inná Wikipedia, sem inniheldur allar helstu upplýsingar um háhyrninga.
Hrefna barðist fyrir lífi sínu við hóp háhyrninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.7.2008 | 13:20
Innflytjendur.
Frá því að ég var barn, hef ég velt því fyrir mér hvers vegna litið væri hornauga á fólk sem væri öðruvísi.
Það má svosem segja að ég þjáist af litblindu, að því leytinu til að fyrir mér er fólk allt alveg eins sama hvaða litarhaft er á húðinni.
Fyrir fáeinum árum síðan, var ég á kaffihúsi sem ég stundaði mikið á þeim tíma. Var búin að sötra þar kaffi og eiga í góðum samræðum í góðra vina hóp í ágæta stund þegar ákveðið var að kominn væri tími á heimferð.
Ég geng því að afgreiðsluborðinu, og sé að þar er nýr starfsmaður á ferð sem ég kannaðist ekki mikið við. En það vildi líka svo skemmtilega til að peningakassinn var bilaður, og því ekki hægt að nota hann til reikninga, og því þurfti þessi starfsmaður að telja peninginn fyrir framan mig, og gefa mér þannig til baka.
Hann var ekki íslenskumælandi þessi maður, og hann segir við mig að hann muni ekki móðgast þótt ég myndi telja peningana aftur til að vera viss um að hann væri ekki að svindla á mér.
Ég tek við peningunum, frekar hissa, og sting þeim í vasann, og fullvissa svo starfsmanninn um það að ég sé enga þörf á því að telja peningana, þar sem ég geti alveg treyst á stærðfræði kunnáttu hans án allrar tortryggni.
Grey maðurinn horfir stórundrandi á mig og skilur ekki neitt í neinu, og segir mér svo að honum þætti þetta fallega sagt vegna þess hversu vanur hann væri að hann væri lítt tekinn gildur og honum illa treyst vegna þess litar sem prýddi húð hans.
Ég brosti bara til hans og sagði að hann myndu fá sömu meðferð og allir hinir, að ég skyldi treysta honum þangað til að hann sýndi fram á annað.
Ég tek það fram að þessi einstaklingur er eins svartur og hægt er að verða, og er ágætur vinur minn í dag.
Ég tek líka mikið eftir því hvert sem ég fer, hvort sem það eru einkarekin eða opinber fyrirtæki eða stofnanir, að það virðist bara ekki hægt að ráða annað fólk til ræstinga nema að það sé fætt og uppalið í einhverju Asíulandinu. Það virðist engu máli skipta hvaða menntun þetta fólk hefur, það eina sem því býðst er einhver skítavinna með skammarlegum mánaðarlaunum.
Það vill t.d. enginn heldur ráða til sín pólverja eða litháa til vinnu, nema að það sé byggingarvinna eða sem dyraverðir á bar um helgar, og þá á skítalaunum líka.
Það mætti halda að íslendingar skömmuðust sín fyrir innflytjendur, þótt raunin sé sú, að þetta er fólkið sem lætur sig hafa það að vinna þær vinnur sem íslendingar telja sig of góða fyrir.
Það er ansi hávært líka, að fólk kvarti yfir því að þetta fólk læri aldrei íslensku. Og hversu hræðilegt það sé að fólk hrúgi sér saman í eina íbúð, og verði því hverfi til háborinnar skammar.
Ég er bara andskotinn hafi það ekkert hissa á því.
Aumingja fólkinu er troðið í einhverjar skítavinnar, fyrir skammarleg laun, og þeim er ekki einu sinni boðið uppá almennilegt íslenskunám. Einnig eru íslendingar svo fjandi óþolinmóðir að ef einhver innflytjandinn reynir að gera sig skiljanlegan, er bara hoppað beint yfir á enskuna. Íslenskukennsla í landinu kostar pening sem þetta fólk hefur kannski ekki á milli handanna, þegar það vinnur myrkranna á milli fyrir smotterí. Hvað þá þegar kemur að því að borga leigu?
Held að það væri bara hægt að kenna þeim um, sem á og rekur íbúðina. Hversu oft hefur maður heyrt af því að í 50fm íbúð hafi verið troðið inn 8+ einstaklingum, og hver og einn borgar 50.000iskr í leigu? Og fyrir íbúð sem er svo kannski ekki einu sinni samþykkt og er engum manni bjóðandi.
Ég held að fólk ætti bara að skammast sín, og sýna meira umburðarlyndi og tillitssemi, og hugsa aðeins útfyrir kassann.
Vöktu athygli á fordómum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.7.2008 | 17:42
Neyðin kennir naktri konu..
Þeir deyja nú greinilega ekki úrræðalausir þarna í Nevadafylki.
Dettur nú samt helst í hug að þegar efnahagslífinu fer að halla meira undir fæti á alheimsvísu, eins og nú margir hafa spáð, þá eiga nú ekki margir eftir að hafa ráð á því að kaupa sér eina vændiskonu. Þótt að hún ætti gjafakort á næstu bensínstöð. Þá verður þetta "Tvær fyrir eina, 50 dollara gjafakort, og hálfslíters kók".
Kannski hefði Geiri á Goldfinger átt að taka uppá einhverju svona þegar allt var sem háværast í kringum hann. 2000kr- gjafakort í bónus, fyrir hvern kjöltudans keyptan. Þá held ég nú að margar hverjar rauðsokkurnar hefðu nú laumulega sent eiginmennina til að kaupa í matinn, og gert kostakaup.
Bandarískt vændishús: Borga bensínið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2008 | 19:14
Er málið úthugsað?
Ég næ ekki uppí þetta. Þótt ég geti rétt ímyndað mér þær áhyggjur sem íbúar þessa hverfis hafa, finnst mér þó að málið sé ekki alveg hugsað út til enda.
Það er eins og fólk setji samasem merki á milli áfangaheimilis og dópbælis.
Áfangaheimili er fyrir þá einstaklinga sem sjálfviljugir hafa farið í afvötnun og áframhaldandi áfengis og fíkniefna meðferð á meðferðarheimilum sem eru staðsettar víðsvegar um landið, og hafa einsett sér það markmið að komast aftur út í þjóðfélagið sem heilbrigðir einstaklingar.
Þetta er fyrst og fremst fyrir þá einstaklinga sem hafa ekkert annað að leita, s.s. vina eða ættingja, og er þetta fyrirbyggjandi til þess að þessir einstaklingar lendi aftur úti á götu og í sama fari og þeir voru áður.
Þess vegna þykir mér þetta svo skammarlegt, að fólk fari bara herförum í að reyna að útihýsa fólk sem þarf á þessari gífurlegu aðstoð að halda.
Ég hef þurft að vaða þessa braut sjálf. Ég fór í gegnum allan fíkniefnapakkan, og veit því hversu erfitt það er að rífa sig upp á lappirnar aftur. Því miður er það ekki eins einfalt og margir vilja halda fram, að þetta sé bara spurning um viljastyrk, og ef ekki er nóg til af honum þá er maður bara aumingi. Það getur enginn skilið fíkn, nema að hafa gengið í gegnum hana sjálfur.
En ef tilætlunin væri nú að koma þarna fyrir dagdeild fyrir krabbameinssjúklinga, eða eitthvað því álíka? Þá held ég að hljóðið yrði nú allt öðruvísi hjá íbúum Norðlingaholts. En eitt er þó víst, að þótt ég fari kannski útí öfgar með samanburðinn, að fólk sem er ánetjað fíkniefnum er alveg jafn sjúkt og þeir sem þjást af krabbameini, sykursýki, þunglyndi, eða einhverju öðru.
Það væri þó nær að sýna þessu fólki stuðning í þeirri baráttu sem þeir eru að heyja, og nota þá orkuna frekar í að reyna að losa þjóðfélagið við fíkniefni og koma þeim einstaklingum sem flytja þetta inn og selja á bakvið lás og slá.
Þú refsar ekki krabbameinssjúklingi með sektum og fangelsisvist fyrir lífshættulegan sjúkdóm, eða fleygir honum útá götu, því á maður ekki að refsa manni sem ánetjaður er fíkniefnum, með því að vista hann í fangelsi eða hreinlega bíður eftir því að hann drepist.
Íbúar í Norðlingaholti afhenda borgarstjóra undirskriftir gegn áfangaheimili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)